Persónulegur gagnagrunnur

Ég vildi að ég hefði vitað hvað pabbi hefði viljað áður en hann féll frá, við höfðum öll einhverja hugmynd um hvað hann vildi, en það var hvergi skráð niður og einhvernveginn mundum við óskir hans á ólíkan hátt.

Aðstandandi

Ímyndaðu þér að til væri staður þar sem þú gætir skráð niður þínar hinstu óskir fyrir andlát á öruggan stað sem þú ein/n hefur aðgang að.

Dauðinn er erfitt umræðuefni og eitthvað sem við forðumst oft að tala um, en þegar ástvinir falla frá sitja aðstandendur eftir með ótal spurningar til viðbótar við það að takast á við sorgina.

  • Vildi pabbi bálför eða jarðsetningu?
  • Átti útförin að vera í kyrrþey eða ekki?
  • Var hann trúaður?
  • Hvaða lög á að spila í útförinni?
  • Var til erfðaskrá?
  • Átti hann eitthvað ósagt við okkur?

Fyrsti hluti Trés Lífsins er persónulegur rafrænn gagnagrunnur þar sem við viljum bjóða þér að skrá niður alla þá hluti sem þú vilt koma á framfæri við aðstandendur eftir andlát þitt, hvort sem um ræðir óskir tengdar skipulagi útfarar eða skilaboð sem þú vilt skilja eftir fyrir ástvini.

Gagnagrunnurinn verður eins og netbanki sem enginn hefur aðgang að nema þú og fyllsta öryggis við gagnavernd verður gætt. Einstaklingar frá 18 ára aldri geta skráð sig inn í gagnagrunninn og breytt upplýsingum eftir því sem lífi þeirra vindur fram.

Gagnagrunnurinn er eingöngu opinn þér og upplýsingarnar sem þú skráir þar verða ekki gerðar aðgengilegar nánustu aðstandendum fyrr en eftir að þú ert látinn og þá eingöngu þeim aðstandendum sem þú hefur valið að verði veittur aðgangur.

Svona gæti viðmót persónulega gagnagrunnsins litið út
Ýttu á myndina til að stækka hana