Tré lífsins er frumkvöðlaverkefni í þróun sem mun bjóða upp á nýjan valmöguleika við lífslok. Tré lífsins býður upp á skráningu sögunnar okkar og hinstu óska í Lífsbók Tré lífsins, bálstofu með athafnasal og kyrrðarrými, gróðursetningu á ösku hins látna ásamt tré í Minningagarði og rafræna minningasíðu.
Tré lífsins er óháð öllum trúar- og lífsskoðunarfélögum og mun vera opið öllum óháð trú þeirra, trúleysi eða lífsskoðun.
Að baki Tré lífsins stendur Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, forsvarskona og stofnandi, ásamt fjölda sérfræðinga á ólíkum sviðum sem ná til verkefnisins, svo sem lögfræði, tækni, persónuverndar, skógræktar og sorgarúrvinnslu.
Sigríður Bylgja er með meistaragráðu í mannvistfræði með áherslu á menningu, völd og sjálfbærni. Hún hefur starfað mikið í umhverfismálum og sjálfbærni er henni sérstaklega hugleikin.
Tré Lífsins hefur verið í þróun frá árinu 2015.
Stjórn Lífsbókarinnar
Í stjórn Tré lífsins- lífsbókin ehf. sitja ásamt Sigríði Bylgju, þau Berglind Sigurjónsdóttir og Arnar Snær Gunnarsson.
Berglind hefur yfir áratugs reynslu í heimahjúkrun og við umönnun sjúkra, aldraðra og deyjandi. Hún hefur einstaka nærveru og mikinn skilning á þörfum fólks á erfiðum stundum.
Hafa samband við Berglindi: berglind@trelifsins.is
Arnar hefur lifað og hrærst í hinum stafræna heimi frá því á grunnskólaaldri. Hann er tækni- og öryggissérfræðingur Tré lífsins og tryggir meðal annars það að þau viðkvæmu gögn sem fólk mun skrá inn í Lífsbókina verði varðveitt á öruggan hátt.
Hafa samband við Arnar: arnar@trelifsins.is
