Hvaða tré vilt þú verða?
Mér finnst það góð tilhugsun að nýtt líf spretti upp
frá öðru sem lauk og ég vil að fólk geti farið á
náttúrulegan og fallegan stað til að minnast ástvina
sinna.
-Sigríður Bylgja, stofnandi Trés Lífsins
Fyrsti Minningagarður landsins verður opnaður við hlið höfuðstöðva Trés lífsins í Rjúpnadal í Garðabæ. Í Minningagarðinum bjóðum við upp á þann möguleika að gróðursetja ösku látins ástvinar í lífrænu duftkeri ásamt tré sem vex upp til minningar um hinn látna.
Að baki Minningagörðunum er heil hugmyndafræði um tengingu manns og náttúru og upplifun á sorgarferlinu. Tré gegna því magnaða hlutverki að útvega okkur lífsnauðsynlegt súrefni og sinna auk þess mörgum mikilvægum hlutverkum í vistkerfinu. Það að sjá tré vaxa af ösku ástvinar mun vonandi veita huggun í sorginni þar sem tréð er allt í einu orðið persónulegt og táknar ástvin sem okkur var kær. Það að faðma tré fær allt aðra merkingu í þessu tilliti.
Hvert tré í Minningagörðunum verður merkt með nafni þess sem undir því hvílir og QR kóða sem mun flytja gesti garðanna inn á rafræna minningasíðu hins látna.
Von okkar er sú að Minningagarða verði að finna um allt land og að með tíð og tíma verði þeir að fallegum skógum til útivistar og samverustunda.