Fréttir

3.desember 2021

Fréttatilkynning frá Tré lífsins:

ÓSK UM 500 MILLJÓN KRÓNA STOFNKOSTNAÐARSTYRK SEND FJÁRLAGANEFND ALÞINGIS OG FJÁRMÁLARÁÐHERRA.

Stjórn Tré lífsins- bálstofa og minningagarðar ses. og Bálfarafélag Íslands hafa lagt fram ósk um stofnkostnaðarframlag frá íslenska ríkinu til byggingar bálstofu Tré lífsins í Rjúpnadal í Garðabæ. Stofnkostnaðarframlagið sem sótt er um eru 500.000.000 kr. Beiðni félagsins var send til fjárlaganefndar Alþingis og fulltrúar stjórnar Tré lífsins munu funda með fjármálaráðherra í næstu viku um málið.

Allir Alþingismenn hafa fengið sent erindi frá Tré lífsins þar sem óskað hefur verið eftir stuðningi þeirra við verkefnið, enda er það þverpólitískt og varðar mál sem snertir alla landsmenn. Bálstofan í Fossvogi hefur verið í rekstri síðan árið 1948, í 73 ár, og hefur innan við eitt ár til þess að skila heilbrigðiseftirlitinu áætlun um uppsetningu mengunarvarnarbúnaðar, sem ekki er til staðar í bálstofunni. Vegna þess hve gömul bálstofan er verður ekki hægt að setja mengunarvarnarbúnað á hana og því er ljóst að byggja verður nýja bálstofu á Íslandi. Tré lífsins vill taka við þessu þjónustuhlutverki og um leið bjóða upp á nýja valmöguleika sem varða gróðursetningu á ösku fólks ásamt tré í minningagarði og óháð rými til að halda ýmsar athafnir.

Tré lífsins er frumkvöðlaverkefni sem hefur verið í þróun undanfarin sex ár. Sigríður Bylgja, stofnandi Tré lífsins segir að: ,,mikilvægt er að Tré lífsins verði að veruleika m.t.t. umhverfismála, virðingar við val einstaklingsins, sanngirni á milli trúar- og lífsskoðunarfélaga, til að veita betri þjónustu við landsbyggðina í þessum málum og til þess að við getum kvatt ástvini okkar á fallegan hátt í takt við óskir hvers og eins.

15.október 2021

Fréttatilkynning frá Tré lífsins:

SÝSLUMAÐUR VEITIR SAMÞYKKI FYRIR STAÐSETNINGU OG SKIPULAGI NÝRRAR BÁLSTOFU

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur veitt Tré lífsins samþykki fyrir staðsetningu og skipulagi bálstofu í Rjúpnadal í Garðabæ. Samþykkið er veitt á grundvelli 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 668/2007 og veitir tilskylda heimild í aðalatriðum, líkt og áskilið er áður en bygging bálstofu hefst.

Samþykkið er grundvöllur þess að hægt sé að halda áfram með verkefnið sem unnið hefur verið að undanfarin sex ár og hefja formlega fjármögnun þess. Áður höfðu Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og skipulagsyfirvöld í Garðabæ veitt verkefninu jákvæðar umsagnir, auk Skipulagsstofnunar sem hefur staðfest aðal- og deiliskipulag fyrir Rjúpnadal þar sem gert er ráð fyrir bálstofu og minningagarði Trés lífsins norðan Vífilstaðavatns.

Bálstofa Trés lífsins verður önnur bálstofan sem reist verður hér á landi, en fyrir er bálstofa við Fossvogskirkju sem hefur verið starfrækt í 73 ár.

Tré lífsins starfar óháð trúar- og lífsskoðunarfélögum og þjónusta þess verður öllum opin.
Aðstaða Trés lífsins í Rjúpnadal verður um 1500 fermetrar að stærð og mun hýsa athafnarými, kyrrðarrými og kveðjurými auk bálstofunnar. Í minningagarðinum verður hægt að gróðursetja ösku ásamt trjám sem vaxa munu upp til minningar um ástvini sem fallnir eru frá.

Samþykki Sýslumanns er stór áfangi í verkefni sem miðar að því að skapa nútímalega og umhverfisvæna aðstöðu sem verður bylting frá núverandi fyrirkomulagi.