Fréttir

15.október 2021

Fréttatilkynning frá Tré lífsins:

SÝSLUMAÐUR VEITIR SAMÞYKKI FYRIR STAÐSETNINGU OG SKIPULAGI NÝRRAR BÁLSTOFU

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur veitt Tré lífsins samþykki fyrir staðsetningu og skipulagi bálstofu í Rjúpnadal í Garðabæ. Samþykkið er veitt á grundvelli 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 668/2007 og veitir tilskylda heimild í aðalatriðum, líkt og áskilið er áður en bygging bálstofu hefst.

Samþykkið er grundvöllur þess að hægt sé að halda áfram með verkefnið sem unnið hefur verið að undanfarin sex ár og hefja formlega fjármögnun þess. Áður höfðu Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og skipulagsyfirvöld í Garðabæ veitt verkefninu jákvæðar umsagnir, auk Skipulagsstofnunar sem hefur staðfest aðal- og deiliskipulag fyrir Rjúpnadal þar sem gert er ráð fyrir bálstofu og minningagarði Trés lífsins norðan Vífilstaðavatns.

Bálstofa Trés lífsins verður önnur bálstofan sem reist verður hér á landi, en fyrir er bálstofa við Fossvogskirkju sem hefur verið starfrækt í 73 ár.

Tré lífsins starfar óháð trúar- og lífsskoðunarfélögum og þjónusta þess verður öllum opin.
Aðstaða Trés lífsins í Rjúpnadal verður um 1500 fermetrar að stærð og mun hýsa athafnarými, kyrrðarrými og kveðjurými auk bálstofunnar. Í minningagarðinum verður hægt að gróðursetja ösku ásamt trjám sem vaxa munu upp til minningar um ástvini sem fallnir eru frá.

Samþykki Sýslumanns er stór áfangi í verkefni sem miðar að því að skapa nútímalega og umhverfisvæna aðstöðu sem verður bylting frá núverandi fyrirkomulagi.