Þjónusta gamla

Öll sú þjónusta sem í boði verður hjá Tré lífsins er óháð trúar- og lífsskoðunarfélögum, en öllum opinn. Það þýðir að hvaða trúar- eða lífsskoðunarfélagi sem þú ert í, eða ef þú stendur utan slíks félags, ertu hjartanlega velkomin að nýta þér þjónustuna okkar. Sú þjónusta sem við bjóðum snýr bæði að lífi okkar og lífslokum.

Höfuðstöðvar með margskonar þjónustu, Minningagarður, Minningasíður

Móttaka

Tekið verður á móti gestum Trés lífsins af hlýju og alúð sama hvert tilefni heimsóknarinnar er. Stefnt er að því að auk þeirrar þjónustu sem Tré lífsins býður upp á verði höfuðstöðvar Lífsbókarinnar einnig til húsa í Rjúpnadal.

Hjá Tré lífsins verður að finna kyrrðarrými sem er öllum opið, útleiga verður á athafnarými og hjá okkur verður rekin bálstofa og rými fyrir hinstu kveðjustundir.

Athafnarými

Hjá Tré lífsins verður hægt að halda ólíkar athafnir í fallegu og hátíðlegu athafnarými. Salurinn verður fjölnota og hægt að raða upp eftir hverju tilefni fyrir sig. Hjá okkur verður því hægt að halda athafnir eins og:

  • nafngjafir/skírnir
  • fermingar
  • hjónavígslur
  • afmæli
  • eða erfidrykkjur og minningastundir.

Fullbúið framreiðslueldhús verður á staðnum ásamt borðbúnaði og þeirri tækni sem þarf til að halda góða veislu.

Kyrrðarrými

Á annarri hæð hússins verður kyrrðarrými sem opið er almenningi á opnunartíma hússins. Í kyrrðarrýminu verður 360°útsýni yfir höfuðborgarsvæðið þar sem við blasa skógi vaxnar hlíðar Heiðmerkur, strandlengjan og Faxaflóinn, fjallahringurinn frá Snæfellsnesi til Esjunnar, Bláfjalla og Reykjaness. Rólegt yfirbragð verður yfir kyrrðarrýminu þar sem fólk fær tækifæri til að minnast ástvina sem kvatt hafa þesa tilvist og eiga notalega stund í kyrrlátu rými, umvafið gróðri og fegurð náttúrunnar.

Kveðjurými

Í bálstofuhluta Trés lífsins verður kveðjurými þar sem fólk getur haldið ástvini sínum hinstu kveðjustund. Starfsfólk Trés lífsins getur aðstoðað við skipulag hinstu kveðjustundarinnar í takt við óskir hins látna. Athöfninni sjálfri getur verið stýrt af fulltrúar þess trúar- eða lífsskoðunarfélags sem óskað er eftir, hvort sem um er að ræða prest, athafnastjóra Siðmenntar, ásatrúargoð eða annað. Aðstandendur geta einnig stýrt athöfninni sjálfir.

Hinsta kveðjustundin verður þannig að persónulegri stund í takt við þau lífsgildi ástvinarins sem kvaddur er og þær óskir sem viðkomandi hafði. Hinstu óskir verður t.d. hægt að skrá í Lífsbók Trés lífsins.

Bálstofa

Bálstofa Trés lífsins verður með umhverfisvænum rafknúnum ofni sem búinn er fullkomnu hreinsikerfi og mengunarvörnum sem uppfylla strangar umhverfiskröfur. Ofninn kemur frá Þýskalandi frá fyrirtæki sem hefur framleitt slíkan búnað í þrjá áratugi og hefur selt vörur sínar um allan heim.

Að bálför lokinni býðst fólki sá möguleiki að gróðursetja öskuna í lífrænu duftkeri ásamt tré í Minningagarði Trés lífsins þar sem tréð vex upp til minningar um hinn látna. Kjósi fólk að jarðsetja duftkerið í kirkjugarði, duftreit eða dreifa því í samræmi við lög er sá valmöguleiki einnig fyrir hendi. Okkur þykir mikilvægtast að óskir hins látna séu virtar.